Svermur, Blendingar og Rumskarar.

Svermur, Blendingar og Rumskarar.

30. júlí – 15. September, 2022.

Myndlistarsýning Pálshúsi, Ólafsfirði

Hjónin Guðrún Vera Hjartardóttir og Jón B. K. Ransu sýna skúlptúra, málverk og teikningar.

Í list sinni hefur Guðrún Vera Hjartardóttir skoðað viðkvæmni mannlegrar tilvistar og náttúru og birt á áleitinn, en oft húmorískan, hátt. Hún sýnir skúlptúra undir heitinu Rumskarar, en þeir verða til þegar skynfæri, eins og nef eða eyra, taka sér bólfestu á steini líkt og fléttur eða skófir, svo hann rumskar af djúpsvefni. Rumskarar eru sem táknmyndir fyrir svefn manna gagnvart náttúrunni og ákall til þeirra að vakna og sjá sjálfa sig í henni.

Í verkum sínum horfir Jón B. K. Ransu til skrásettrar sögu málaralistar og tileinkar sér ímyndir eða aðferðir þaðan, sem oftar en ekki höfða til sjónfræði og hvernig við vinnum úr upplýsingum lita og forma. Hann sýnir málverk undir heitinu Svermur. Myndefnið er innblásið af Bandarískum hryllingsmyndum frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar sem listamaðurinn tvinnar svo saman við aðferðafræði ný-impressjónisma 20. aldarinnar.

Saman sýna þau svo 9 teikningar sem nefnast Blendingar og er þeirra fyrsta samsköpunarlistaverk, þótt þau hafi verið par í 30 ár og oftar en ekki deilt saman vinnustofu á því tímabili. Blendingur er formgerð samsett úr aðskildum og jafnvel óskyldum hlutum. Myndirnar eru þannig samsettar af formhugsun og myndsköpun Guðrúnar Veru, annars vegar, og Ransu, hins vegar.

Sýningin verður opnuð í Pálshúsi á Ólafsfirði 30. júlí klukkan 14:00 og stendur til 15. september.