Hljómur úr firði - Litir frá Bach.

Hljómur úr firði - Litir frá Bach.

„Hljómur úr firði - Litir frá Bach“ er titill samsýningar Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar myndlistarmanns og Tinnu Gunnarsdóttur vöruhönnuðar. Verk þeirra beggja miða að því að miðla hrynjanda, litum og formum úr ólíkum uppsprettum.

Verk Tinnu eru unnin upp úr landslagi Héðinsfjarðar þar sem taktur eða tif náttúrunnar er myndgert og miðlað í myndbandsverkum. Verk Tinnu eru hluti af doktorsrannsókn hennar, Snert á landslagi, sem hún vinnur við Háskóla Íslands.
Verki Sigtryggs má lýsa sem þrívíðu málverki. Þar freistar listamaðurinn þess að draga fram liti 6. sellósvítu Bachs og myndgera. Verkið tengist tilraunakenndri litafræðikennslu Sigtryggs við Sjónlistadeild Myndlistaskóla Reykjavíkur þar sem tengsl tónlistar og lita eru könnuð. Samstarfsaðili Sigtryggs er Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari.

Um listamennina

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann stundaði nám í Myndlistaskólanum á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi
frá École des Arts Decoratifs í Strassborg í Frakklandi.
Sigtryggur hefur í málverkum, ljósmyndum og vatnslita-myndum gert afmörkuðum náttúrufyrirbrigðum skil. Vatnsfletir hafa verið leiðandi stef í verkum hans, straumvatn og
haffletir sem endurspegla hinar höfuðskepnurnar, ljós, loft og jörð og einstaka krafta náttúrunnar svo sem vind og þyngdarafl. Sigtryggur hefur einnig reynt að skýra og draga
fram uppbyggingu eða niðurröðun hlutanna í heiminum meðal annars með myndum af blómabrekkum og laufskrúði trjáa. Spurningar, um erindi nútímamannsins út í ósnortna
náttúru og ábyrgð mannsins gagnvart henni, marka nú vinnu listamannsins með vaxandi þunga.
Á sýningunni í Pálshúsi nálgast Sigtryggur hinsvegar náttúru tónlistarinnar og dregur liti upp úr tónsmíð Bachs, 6. Sellósvítunni og formgerir í stóru þrívíðu málverki.

Tinna Gunnarsdóttir (f. 1968) er vöruhönnuður og prófessor við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. (www.tinnagunnarsdottir.is)
Tinna nýtir hönnunarrannsóknir og nytjahluti hversdagsins til að skoða umhverfi sitt, hvort sem það varðar einkarými heimilisins eða í náttúrulegu samhengi. Hún setur
efni og tækni í óvæntar aðstæður og skapar þannig fersk sjónarhorn, útvíkkaða upplifun, skemmtilega brenglað samhengi. Íslensk landslag hefur haft stór áhrif á meðvitund hennar og rýmisskilning en þeim miðlar hún í gegnum efnislæga hluti.