Hvað nú?

Kristinn E. Hrafnsson er fæddur árið 1960 á Ólafsfirði. Hann stundaði nám í Myndlistarskólanum á Akureyri og Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í Akademie der Bildenden Künste í München í Þýskalandi árið 1990. Kristinn býr og starfar á Seltjarnarnesi.

Kristinn hefur á þrjátíu ára ferli sínum haldið tugi einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga. Í verkum Kristins má greina heimspekilegan þráð og vangaveltur um rúm og tíma, hreyfingu, afstæði og tungumál. List hans fjallar um manninn og skilning hans á umhverfi sínu og hvernig náttúran mótar sýn hans og samskipti. Samband listaverksins við vettvanginn er mikilvægur þáttur í verkum hans, en á ferli sínum hefur Kristinn gert fjölda umhverfisverka, ýmist einn eða í samvinnu með arkitektum. Verk Kristins hafa verið sýnd á Íslandi og erlendis og er verk hans að finna í öllum helstu listasöfnum á Íslandi og í fjölda einkasafna.

Sýninguna í Pálshúsi kallar Kristinn Hvað nú?, en á sýningunni verða bæði ný og eldri verk. Sýning Kristins verður opnuð 18. maí og stendur til 7. júlí.