Þetta er einhver óljós tenging við sögu sem ég heyrði, frá ömmu minni. Rétt eins og þegar sjóndeildarhringurinn, sjávarlínan verður móðukennd og ekki er hægt að greina á milli himins og hafs. Ég dett inní atburðarásina, myndirnar birtast í höfði mér. Þarna er hún að rétta þeim pönnukökur nýbakaðar upprúllaðar sykraðar á disk. Rétt áður en var komið að bryggjunni þá var skipið stoppað í hafnarminninu og tollararnir komu um borð til að athuga og skoða. Fá sér kaffisopa og pönnuköku. Ég verð ekki sjóveik, líður svolítið eins og það renni í mér eitthvað sjóara blóð, hríslast um mig tilfinning af stolti. Eins og ég og sjórinn höfum gert samkomulag. Sjórinn er annað heimili, fljótandi ættmóðir. Þarna er hringur, þarna er þríhyrningur, og þarna er ferhyrningur. Rýmið sem liggur á milli mín og ykkar er óhlutbundið. Rétt eins og að leika sér með grunnformin í óhlutgerði myndbyggingu. Enska orðið yfir formfræði er geometry og kemur úr forngrísku γεωμετρία; geo- "jörð", -metron "mæling") Þetta gæti verið einhverskonar rúmfræðileg tengsl, jarðnesk vensl. Táknmynd björgunarhringsins er sett í samhengi við hugmyndir hins fullkomna forms. Við þurfum form, ramma til þess að setja hluti í samhengi og tengja. Og svo þarna, já þarna fljúga þeir út fyrir rammann. Verkið heitir Verndarar og þeir vísa okkur áleiðis, á sjó hefur saga fuglsins verið saga verndarans. Mér hefur verið sagt að finna fjöður á vegi vísi á gott, fjöður er oft skilaboð að handan. Ég hef verið að leika mér að því að leggja fjöðrina í lófann og leika vindinum að taka hana, tek djúpan andardrátt inn - svo út, samtaka. Eva Ísleifs 2025. Löngu áður en það var langt síðan. Pálshús.