Saga íslenskra sjókvenna varð undir í almennri þjóðarsögu, þar sem karlmennska og hetjudáðir voru í forgrunni. Í gegnum aldirnar hefur saga sjómennsku á Íslandi verið skrifuð í nafni karla. En í skugga sögunnar leynast óteljandi frásagnir kvenna sem störfuðu við sjóinn, sem fiskverkakonur, útgerðarkonur, róðrakonur og veiðimenn. Þær stóðu við hlið feðra, bræðra og eiginmanna, þoldu kuldann, þreytuna og hörku náttúrunnar en nöfn þeirra hurfu úr frásögnum. Í íslenskri sögu birtist kvenskörungurinn í margvíslegu formi sem húsmóðir, ljósmóðir og kennari, sem ljóðskáld og landvörður. En eitt af minnst sýnilegu en öflugustu birtingarformum hennar er sjókonan; harðgerð, ósérhlífin og seig. Hún stóð vaktina á sjó og landi, fiskaði og flakaði, réri og réri aftur. Í óblíðum veruleika íslensks sjávar voru konur sem stóðu jafnt á við karla oft sagðar vera „karlmannsígildi“. Að heiðra konuna við sjóinn er að viðurkenna að þjóðin stendur á herðum allra kynja og að styrkur, úthald og forsjálni geti jafnan verið kennd við kvenlegt innsæi eigi síður en karlmannlega þrautseigju.